Dómur í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings verður kveðinn upp næsta föstudag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Tæplega fimm vikur eru nú liðnar frá því að aðalmeðferð lauk í málinu þar sem níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun. Lögum samkvæmt á dómari að kveða upp dóm innan fjögurra vikna frá aðalmeðferð, en sé það ekki gert innan átta vikna þarf hugsanlega að endurflytja málið. Það mun hins vegar ekki gerast komi dómur nú á föstudag.

Þeir sem ákærðir voru eru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson, Magnús Guðmundsson, Bjarki H. Diego og Björk Þórarinsdóttir. Eru þau öll sökuð um að hafa haldið gengi hlutabréfa bankans uppi meðan halla tók undan á mörkuðum haustið 2008.