Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur þokast upp á við síðustu daga eftir mikla lækkun undanliðnar vikur. Nýjustu tölur sem borist hafa frá Íbúðalánasjóði varðandi innkomnar umsóknir um íbúðalán ná til loka ágústmánaðar. Þær tölur sýna ekki samdrátt í umsóknum þrátt fyrir að síðustu viku ágústmánaðar hafi íbúðakaupendum staðið til boða verðtryggð lán hjá bönkunum á lægri vöxtum en lán ÍLS bera. "Að okkar mati mun áhrifa aukinnar samkeppni á lánamarkaði gæta í tölum Íbúðalánasjóðs á næstu vikum, bæði vegna þess að íbúðakaupendur bíða mögulegrar frekari lækkunar vaxta og vegna tilfærslu á lántökum frá Íbúðalánasjóði til bankanna," segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu.

Þar segir ennfremur: "Við gerum ráð fyrir að næsta hreyfingaskýrsla Íbúðalánasjóðs sem birt verður á mánudag sýni samdrátt í lánaumsóknum. Spá okkar um frekari lækkun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa þegar litið er til næstu vikna og mánaða er óbreytt. Hækkun ávöxtunarkröfunnar síðustu daga felur því að okkar mati í sé kauptækifæri. Búast má við að markaðurinn verði áfram viðkvæmur fyrir fréttum eða fréttaleysi varðandi útgáfu Íbúðalánasjóðs og viðbrögðum einstaklinga við auknu lánaframboði bankanna."