Þórður Friðjónsson, forstjóri NASDAQ OMX kauphallarinnar á Íslandi, segir að NASDAQ leggi mikla áherslu á hraða og sveigjanleika, líkt og íslenska kauphöllin hefur alltaf gert. Hann segir að í bandarísku kauphöllinni sé mun meiri áhersla á hraða en hjá OMX.

"Að því leytinu til höfum við vinnulag og hugsunarhátt, sem er töluvert nær Bandaríkjunum heldur en samstarfskauphöllunum á Norðurlöndunum, þar sem ekki hefur verið lögð sama áhersla á þessa þætti," segir hann og fagnar því að NASDAQ yfirtekur OMX.

Samruni bandarísku kauphallarinnar NASDAQ og OMX, sem rekur kauphllar í Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum, gekk í gegn 27. febrúar.

KISS eða keep it simple Stockholm

"Því mun væntanlega fylgja fyrirtækjamenning sem er nær þeim áherslum sem við höfum haft. Það er reyndar athyglisvert við þessar sameiningar hversu mikil munur er á fyrirtækjamenningu og viðhorfum eftir löndum. Eftir að við sameinumst OMX kom  fljótt í ljós að áherslur okkar á hraða, sveigjanleika og alþjóðavæðingu voru ávallt í fyrirrúmi og í allri umfjöllun innan OMX lögðumst við jafnan á þá sveifina. Þetta er þekkt innan fyrirtækisins undir hugtakinu KISS - keep it simple Stockholm - svona til að halda þessu á léttum nótum. Við fáum góðan liðsmann með NASDAQ í þessu efni," segir Þórður.

Regluverkið sem íslensku fyrirtækin starfa eftir innan veggja kauphallarinnar breytist ekki við samrunann. Það verður áfram byggt á regluverki frá Evrópusambandinu og samræmdum reglum innan OMX.