Meðalaldur kennara í grunnskólum var 46 ár að meðaltali í fyrrahaust. Þetta er 5,3 árum hækri aldur en árið 1998. Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,2 árum í 46,1 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,2 árum í 45,4 ár. Meðalaldur kennara án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2013 var meðalaldur kennara með réttindi 46,2 ár en meðalaldur kennara án réttinda 39,4 ár, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Á vef Hagstofunnar segir að sé litið 15 ár aftur í tímann hafi fremur litlar breytingar orðið á fjölda kennara eða 6,3%. Ef sérkennarar eru taldir með hefur kennurum og sérkennurum fjölgað um 14,7% á þessum 15 árum. Hins vegar hefur ýmsum stuðningsaðilum nemenda fjölgað verulega.

Ef litið er til kynjaskiptingar þá eru karlarnir nú 908 borið saman við 1.052 haustið 1998 eða 19% kennara nú borið saman við 26% árið 1998. Meiri sveiflur hafa verið í fjölda kvenna meðal kennara. Þær voru 2.993 haustið 1998 en voru flestar haustið 2008, 4.040 talsins.