Tim Stokely, stofnandi og forstjóri OnlyFans, segir að „ósanngjörn“ meðhöndlun banka hafi neytt hann til að banna klámefni á áskriftarsíðunni. „Stutta svarið er bankar,“ segir hann í viðtali við Financial Times um ákvörðunina.

Í síðustu viku bárust fréttir af því að áskriftarsíðan myndi loka fyrir allt klámefni frá og með 1. október næstkomandi. Ákvörðun breska fyrirtækisins hefur valdið miklu fjaðrafoki meðal notenda. Gagnrýnendur hafa einnig velt því fyrir sér hvort fyrirtækið geti vaxið áfram eftir reglubreytinguna.

Stokley segir hins vegar að hann hafi ekki átt annarra kosta völ. Breytingin kom í kjölfar síaukinni fyrirstaða af hálfu banka sem vildu ekki ógna orðstír sínum og höfnuðu því viðskiptum við Onlyfans, að hans sögn.

„Við greiðum einni milljón framleiðenda myndefnis yfir 300 milljónir dala í hverjum mánuði og til að tryggja að við komum þessum fjármunum til þeirra þá þurfum við bankageirann,“ segir Stokely.

Hann nefnir í þessum efnum sérstaklega bankann BNY Mellon sem flaggaði og hafnaði hverri einustu færslu sem tengdist fyrirtækinu. Einnig hafi breski bankinn Metro Bank lokað á fyrirtækjareikning OnlyFans með stuttum fyrirvara árið 2019. Stockley segir að klámstjörnur sem styðjast við vettvanginn hafi einnig átt í vandræðum með bankareikninga sína.

„JPMorgan Chase er mjög ákveðinn í að loka reikningum hjá fólki sem starfar í kynlífsbransanum eða hjá fyrirtækjum sem styðja við fólks sem starfar í þessum bransa.“

Umræddir bankar, BNY Mellon, Metro Bank og JPMorgan, neituðu allir að tjá sig um málið. OnlyFans vildi ekki gefa upp hvaða bankar ættu enn í viðskiptum við sig, í von um að bæta viðskiptasamböndin.

OnlyFans hefur sætt gagnrýni eftir að BBC fjallaði í byrjun sumars um að notendur sem höfðu ekki náð lögaldri voru að framleiða klámefni gegn greiðslu. Stokely segir þó að fyrirtækið sitt hafi fengið ósanngjarna fjölmiðlaumfjöllun vegna „tilvika af ólöglegu myndefni“ og að þær greinar hafi ekki minnst á hvernig hefðbundnari samfélagsmiðlar hafa glímt við þessi málefni. „Bankar lesa sömu fréttamiðla og allir aðrir,“ bætir hann við.

Sum fjártæknifyrirtæki, á borð við Mastercard, hafa brugðist við aukinni umræðu um hætturnar sem leynast innan klámiðnaðarins með strangari reglum sem taka gildi 1. október, sama daga og nýja stefnan hjá OnlyFans verður innleidd. Stokely staðhæfir að nýju reglurnar frá Mastercard hafi ekkert með stefnubreytinguna að gera og segir að fyrirtækið starfi þegar í samræmi við Mastercard reglurnar.

Stokely segir að fyrirtækið muni ráða allt að 200 nýja gæslumenn inn í nærri þúsund manna teymi sem kemur við sögu í „margþrepa gæsluferli“ OnlyFans.

Fyrirtækið neyddist til að fresta hlutafjársölu en Leonid Radvinsky, ráðandi hluthafi Onlyfans, hyggst minnka hlut sinn í áskriftarsíðunni. Ravinsky er stofnandi vefsíðunnar MyFreeCams.

Stokely segir að fjölskyldan sín og Radvinsky myndu ekki hleypa fjárfestum sem kunna ekki við klámefni inn í hluthafahóp OnlyFans. Hann bætti við að hann myndi „algerlega“ taka á móti klámefni aftur á OnlyFans ef bankaumhverfið verði tilbúið að slaka á sínum kröfum.

„Þessi ákvörðun um að verja fjármuni og áskriftir frá ósanngjörnum aðgerðum banka og fjölmiðlafyrirtækja. Við viljum augljóslega ekki missa okkar hollustu áhrifavalda,“ segir Stokely að lokum.