Heimilt verður að úrskurða einstakling í atvinnurekstrarbann vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta samkvæmt frumvarpi sem væntanlegt er frá dómsmálaráðherra. Með breytingunni er fyrst og fremst stefnt að því að sporna við kennitöluflakki og misnotkun á félagaforminu. Fyrirhugað er að breytingin verði felld inn í lög um gjaldþrotaskipti o.fl. en eðlislík heimild hefur verið í almennum hegningarlögum frá síðasta ári.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum nú getur skiptastjóri þrotabús krafist þess að atvinnurekstrarbann verði lagt á þann sem komið hefur að stjórnun félags síðasta eitt og hálfa árið fyrir frestdag. Í banninu felst að viðkomandi verður óheimilt að stjórna félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð svo og að vera prókúruhafi slíks félags eða annað umboð fyrir hönd þess.

Frumvarpið felur einnig í sér að bannið skuli vara í þrjú ár frá uppkvaðningu úrskurðar dómara um efnið. Þó má ákveða að bannið gildi í skemmri tíma ef sérstakar aðstæður krefjast þess. Sem dæmi um slíkar sérstakar aðstæður eru nefnd veikindi, svik annarra eða athafnir hafi byggst á afsakanlegri vanþekkingu.

Komi upp tilvik þar sem banns er krafist, og einstaklingur sætir slíku banni fyrir, ber að ákveða upphafstímabil síðasta bannsins við það tímamark er því fyrra lýkur. Atvinnurekstrarbann má þó aldrei vara lengur en í áratug samfleytt. Þá geyma drögin einnig heimild til að láta einstakling, sem brýtur gegn banni, bera persónulega og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum sem ekki fást greidd úr þrotabúum félaga.

Við mat á því hvort skilyrði til banns séu uppfyllt verður tekið mið af heildaraðstæðum en ekki er kveðið á um það í fyrirhuguðum lagatexta hvaða atvik gætu fallið þar undir.

„Sem dæmi um háttsemi sem undir það gætu fallið eru umfangsmikil vörukaup án þess að líkur séu á greiðslu fyrir þær eða viðvarandi brot gegn bókhaldslögum. Tilfærsla eigna úr hinu gjaldþrota félagi á undirverði eða án endurgjalds fellur hér jafnframt undir og er þar ekki gerður greinarmunur á því hvort um áþreifanlegar eða óáþreifanlegar eignir […] sé að ræða,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Þess er getið að einnig geti verið réttlætanlegt að kveða upp slíkan úrskurð ef einstaklingur hefur ítrekað komið að stjórnun félaga sem enda í þroti.

Í drögunum er einnig áréttað að einungis sé gert ráð fyrir því að slíkum aðferðum sé beitt þegar um alvarleg tilvik er að ræða. Ekki sé að því stefnt að þrengja að frumkvöðlastarfsemi eða hvata einstaklinga til að taka þátt í atvinnurekstri. Breytingunum sé fyrst og fremst ætlað að taka á þeim tilfellum þegar einstaklingur misnotar hlutafélagaformið.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .