Fyrirtækið Kerecis, sem sérhæfir sig í framleiðslu og markaðssetningu á lausnum til meðhöndlunar á vefjaskaða, mun taka þátt í rannsóknarmálþingi um heilbrigðislausnir fyrir heri (MHSRS) 18. til 21. ágúst næstkomandi. Kerecis mun kynna meðferð sína á Marriott Harbor Beach Resort hótelinu í Fort Lauderale í Flórída.

MHSRS er einn aðal vísindafundur varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Málþingið er samkomustaður herlækna og hjúkrunarfræðinga, vísindamanna varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, háskólafólks og einkageirans til að skiptast á upplýsingum um rannsóknir og þróun á heilbrigðislausnum fyrir hermenn.

Í tilkynningu segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, að bandaríski herinn hafi einstakar læknisfræðilegar þarfir, meðal annars er varðar meðhöndlun á sárum sem eiga erfitt með að gróa og telur að góðar líkur séu á að Kerecis Omega3 tækni félagsins henti hernum.