*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 31. júlí 2021 14:22

Kerfið stendur traustum fótum

Eiginfjárhlutföll stóru bankanna þriggja myndu haldast vel yfir lögbundnu lágmarki þótt efnahagshorfur versnuðu umtalsvert.

Ritstjórn
Gígja Einars

Álagspróf Seðlabankans sýna að eiginfjárhlutföll stóru bankanna þriggja myndu haldast vel yfir lögbundnu lágmarki þótt efnahagshorfur versnuðu umtalsvert. Sem sakir standa stendur fjármálakerfið traustum fótum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans.

Fundurinn fór fram í lok júní, en þar var meðal annars ákveðið að lækka hámarks veðsetningarhlutfall úr 85% í 80%. Einn nefndarmaður taldi að merki um ójafnvægi á húsnæðismarkaði þyrftu að vera skýrari áður en gripið væri til úrræða sem væru meira takmarkandi fyrir tekjulága og fyrstu kaupendur.

Staðan á hlutabréfamarkaði var einnig rædd en á milli funda nefndarinnar hækkaði OMXI10-vísitalan um 3%. Frá því að fundurinn í síðasta mánuði fór fram hefur vísitalan hækkað um 6% í viðbót. Bankinn hefur hætt reglubundinni gjaldeyrissölu en keypti tæpa 20 milljarða króna í inngripum í tengslum við skráningu Íslandsbanka.