Garðar Ingvi Gunnarsson á Akureyri keypti Mercedes Benz C 200 af Landsbankanum í vor. Í bifreiðaskrá kemur fram að bíllinn hafi verið forskráður í september árið 2005 og komið á götuna í maí árið eftir.

Eins og málinu er lýst í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins, tímariti Félags íslenskra bifreiðaeigenda, komu ítrekað bilanir upp í bílnum, gangtruflanir og margs konar vandamál að gera vart við sig. Hann leitaði því til sölumanns bílasölunnar og í sameiningu sneru þeir sér til bílaumboðsins Öskju. Þar var aldur bílsins greindur.

Reyndist miklu eldri

Aldursgreining á bílnum leiddi í ljós að bíllinn var smíðaður árið 2001 og var hann því fjórum árum eldri en bifreiðaskrá gaf til kynna. Verðmiðinn á bílnum, þar með talið það sem Garðar reiddi fram, hafði því aldrei verið í samræmi við aldur hans.

Í FÍB-blaðinu segir að þetta mál sé fjarri því að vera einstakt hér á landi. Þá segir að óviðunandi sé að íslenskir neytendur geti ekki gengið að öðrum upplýsingum um aldur bíla en opinberri bifreiðaskrá, sem tilgreini hvenær bíllinn var fyrst skráður hér á landi. Það segir ekki til um það hversu gamall viðkomandi bíll er í raun og veru.

Aldursgreining til dómstóla

Í blaðinu segir jafnframt, að mjög oft komi upp mál til kasta FÍB þar sem deilt er um aldur bíla. Mörg þeirra ganga áfram til úrskurðarnefndar í lausafjár- og þjónustukaupmálum. Sum ganga lengra.

„Koma mætti auðveldlega í veg fyrir flest þessara mála á einfaldan hátt: með því að skrá í bifreiðaskrá framleiðsludag eða - viku bíla og árgerð til viðbótar við fyrsta skráningardag,“ segir í blaðinu og þrýst á að eðlileg aldursskráning bíla verði tekin upp hér á landi.