Sala áfengis í vikunni fyrir verslunarmannahelgi var 2% meiri í lítrum talið en í sömu viku fyrir ári, segir á vef Vínbúðanna . Samtals seldust 727 þúsund lítrar af áfengi í ár en í fyrra seldust 713 þúsund lítrar.

Tvö prósent fleiri viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar á tímabilinu en í fyrra eða rúmlega 128 þúsund viðskiptavinir á móti tæplega 126 þúsund viðskiptavinum í fyrra.

Sala fimmtudags, föstudags og laugardags var meiri nú en sömu daga fyrir ári.  Aukningin á fimmtudeginum var 6,5%, 9,9% á föstudeginum og 5,2% á laugardeginum.  Á móti var samdráttur í sölu á miðvikudeginum tæplega 24%.

Á vef Vínbúðarinnar segir að föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi sé jafnan annasamasti dagur vikunnar og  í ár hafi engin undantekning verið á því. Tæplega 248 þúsund lítrar seldust á föstudeginum og tæplega 41 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar.  Það eru um tíu þúsund fleiri gestir en komu í vikunni á undan, en þá voru þeir 31.600. Á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi í fyrra komu 37.600 viðskiptavinir í Vínbúðirnar.