Kínverski bílaframleiðandinn Geely Automotive Holdings hefur áhuga á að kaupa meirihlutann í Volvo ásamt ónefndum sænskum fjárfesti og bjóða Ford að halda eftir einhverjum eignarhlut.

Þetta kemur fram á Bloomberg fréttaveitunni og er vísað í frétt í norska blaðinu Dagens Næringsliv.

Ford Motor Co. á Volvo í dag en líklegt er að fyrirtækið selji þessa eign sína síðar á árinu, að því er Bloomberg hefur eftir Jöran Hägglund iðnaðarráðherra Svíþjóðar.

Annar bandarískur bílarisi, General Motors, vill einnig losa sig við sænska bílaverksmiðju í sinni eigu, en þar er um að ræða Saab Automobile.

Ford Motor Co. liggur ekki eins mikið á að selja og General Motors enda ekki eins illa statt fyrirtæki fjárhagslega. Ford er eini bílaframleiðandinn í Bandaríkjunum sem ekki hefur þegið aðstoð ríkisins.

General Motors hefur einnig ákveðið draga saman seglin með því að selja Open og Vauxhall í Evrópu og Hummer og Saturn deildir fyrirtækisins í Bandaríkjunum í þeirri viðleitni að grynnka á skuldum en fyrirtækið hefur tapað 88 milljörðum dollara frá árinu 2004.