Aðalvísitalan í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína féll um 3,65% í nótt. Annað eins verðfall hefur ekki sést á markaðnum síðan í ágúst árið 2011. Gengi hlutabréfa fasteignafyrirtækja og tengdra greina fékk á sig skell og dró markaðinn niður eftir að greint var frá því á föstudag að kínversk stjórnvöld ætli að grípa til aðgerða til að lækka fasteignaverð. Það hefur verið á mikilli uppleið í gegnum tíðina og ýtt undir bólu á eignamarkaði í stærstu borgum landsins.

Á meðal þeirra aðgerða sem hafa verið boðaðar eru hærra eigið fé í fasteignaviðskiptum og hækkun vaxta á íbúðabréfum við önnum fasteignakaup í þeim borgum þar sem verðið hefur hækkað mest síðustu misserin. Þessu til viðbótar hefur ríkið lagt 20% skatt á fasteignaviðskipti.

Netmiðillinn Marketwatch hefur eftir kínverskum ráðamönnum að vonast sé til að aðgerðirnar muni draga úr eftirspurn á fasteignamarkaði.