Talsvert færri gengu í hjónaband hér á landi í fyrra en nokkur undanfarin ár samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Kirkjulegum hjónavígslum fækkar en borgaralegar hjónavígslur standa í stað. Skilnaðartíðni hefur lítið breyst hér á landi undanfarinn aldarfjórðung en 36% hjónabanda enda með skilnaði.

Kirkjulegum hjónavígslum fækkar

Fækkun hjónavígslna er eingöngu bundin kirkjulegum vígslum, en þeim fækkaði um 243 frá 2008 til 2009. Borgarlegar vígslur hafa hins vegar aðeins einu sinni verið fleiri á einu ári. Þær voru 352 árið 2009, einni færri en árið 2007 þegar þær voru flestar.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands gengu 1.480 pör í hjónaband á Íslandi árið 2009. Er það talsverð fækkun miðað við fyrri ár. Árið 2008 gengu 1.704 pör í hjónaband og 1.797 árið 2007. Aldrei hafa fleiri gengið í hjónaband hér á landi en árið 2007.