Kjaradeila flugvirja og Icelandair skaðar ímynd félagsins og landsins alls, segir upplýsingafulltrúi Icelandair í viðtali við Ríkisútvarpið . Flugvirkjar hafa nú boðað sólarhrings verkfall frá mánudagsmorgni og ótímabundna vinnustöðvun á fimmtudag náist ekki að semja fyrir þann tíma.

Nú þegar hefur verið aflýst öllum 65 flugferðum Icelandair á mánudaginn. En áætlað er að verkfall þennan eina dag muni hafa áhrif á áætlanir 12.000 farþega, jafn marga og urðu fyrir raski þegar flugfreyjur og flugmenn stóðu í kjaradeilum við Icelandair á vormánuðum og rúmlega 90 flugferðum var aflýst.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið bera mikinn kostnað af deilunni: „Og svo fylgir þessu ímyndarskaði. Þetta er ekki gott til afspurnar og skaðar ímynd félagsins og reyndar landsins líka".

Hann segir þurfa að ganga til samninga við flugvirkja fljótt og örugglega. „Jú,jú, það er auðvitað það sem þarf að gera og við vonuðumst auðvitað til þess að það væri hægt að ná samningum við þá á svipuðum nótum og yfir 95% af starfsfólki félagsins sem búið er að semja við en því miður voru kröfur flugvirkjanna langtum langtum meiri", segir Guðjón.

Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar flugvirkja segir þetta mikla einföldun á málinu: „Því að í þessum samningum er verið að tala um töluvert breytt vinnufyrirkomulag og vaktir sérstaklega. Stéttafélög hafa þennan eina kost, í raun og veru, í stöðunni, þegar það er búið að sitja 20 fundi og reyna að ná samkomulagi og það hefur ekki gengið eftir. Okkur finnst þetta miður en það hljóta báðir að eiga sök".