Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ríkisstjórnina sýna aukið aðhald í ríkisfjármálum til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Þá gerir hann ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs muni batna um 25 milljarða árið 2023 samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2023- 2027 en fyrir var gert ráð fyrir 63 milljarða króna halla á árinu 2023. „Það munar töluvert um aukið aðhald sem við settum inn í fjármálaáætlunina. Við erum þá sérstaklega að horfa til ársins 2023 þar sem við erum að gera meiri aðhaldskröfu á reksturinn og erum að fresta áformum um ný útgjaldamál.“

Kjaraviðræður eru framundan í haust og búist er við umfangsmiklum launahækkunum. Bjarni ítrekar mikilvægi þess að viðræðurnar taki mið af stöðu hagkerfisins og þeim óvissutímum sem eru uppi núna.

„Maður er svo sem aldrei rólegur yfir því hvernig úr þessu mun spila. Það er mikil óvissa sem veldur manni áhyggjum, það er óvissa um framvindu stríðsins, það er óvissa um þróun verðbólgunnar í nágrannalöndum. Við erum að horfa á verðbólgutölur í Evrópu og Bandaríkjunum sem við höfum ekki séð áður. Þannig að það er ástæða til þess að veita því athygli og haga sér í samræmi við það og fara varlega.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.