Í heild hafa 24 félög nýtt sér úrræði laga um fjárhagslega endurskipulagningu og farið í greiðsluskjól samkvæmt tilkynningum sem birtar hafa verið í Lögbirtingablaðinu. Þar af eru 19 í ferðaþjónustu, en í nokkrum tilfellum eru fleiri en eitt félag innan sömu samstæðu í greiðsluskjóli og því eru rekstraraðilarnir færri en talan gefur til kynna. Þá hafa tvö félög í verslun, eitt í byggingariðnaði og tvö í veitingageiranum farið í greiðsluskjól. Alls hafa þrjú af félögunum 24 þegar verið lýst gjaldþrota.

Frumvarp dómsmálaráðherra, sem snerist um ofangreindar tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar var samþykkt af Alþingi undir lok júní á síðasta ári. Var markmið laganna að auðvelda fyrirtækjum að endurskipuleggja rekstur sinn og þar með komast hjá gjaldþroti vegna tímabundins tekjumissis vegna áhrifa COVID-19.

Félögum var samkvæmt lögunum heimilt að vera 12 mánuði að hámarki í greiðsluskjóli og því standa sumir rekstraraðilar sem nýtt hafa sér úrræðið frammi fyrir því að það renni sitt skeið von bráðar. Þeim aðilum liggur því á að ná samningum við sína lánardrottna, ella gæti gjaldþrot blasað við í einhverjum tilfellum.

Hafa rúmar tvær vikur til stefnu

Rútufyrirtækið Allrahanda GL, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Grayline hér á landi, fékk heimild fyrir greiðsluskjóli þann 29. júní 2020. Félagið hefur frest til 25. júní næstkomandi til þess að ljúka vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu. Í ársreikningi Allrahanda segir að rekstrarhæfi félagsins til frambúðar velti á því hvort það tekst að ljúka nauðasamningi og koma félaginu aftur í rekstur eftir tekjuhrunið sem varð í mars á síðasta ár.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, segir viðræður við kröfuhafa ganga ágætlega en vildi ekki gefa meira upp að svo stöddu. Félagið tapaði 699 milljónum króna á síðasta ári og eigið fé í árslok var neikvætt um 242 milljónir króna og skuldir námu 2,1 milljarði.

Arctic Adventures félög lagt fram nauðasamninga

Straumhvarf, rekstrarfélag Arctic Adventures, fer úr greiðsluskjóli í næstu viku, þegar ár verður liðið frá því að félagið fékk heimild til að leita skjóls. Líkt og Túristi greindi frá í vikunni skuldar félagið 1,1 milljarð króna og þar af viðskiptavinum sínum 573 milljónir króna. Ætlar félagið að endurgreiða að fullu allar alferðir. Er umrædd endurgreiðsla fjármögnuð með 273 milljóna króna láni frá Ferðaábyrgðasjóði. Aðrar ferðir verði endurgreiddar samkvæmt skilmálum, en öllum viðskiptavinum standi til boða hagstæðar inneignir í stað endurgreiðslu.

Hvað almenna kröfuhafa varðar eru gefnir tveir kostir. Stendur þeim annars vegar til boða að fá skuld sína greidda að fullu í fjórum jafnstórum afborgunum, þar sem sú síðasta er dagsett 1. apríl á næsta ári. Kröfuhöfum stendur einnig til boða að fá 80% af kröfu sinni og þá fari uppgjör fram um næstu mánaðamót.

Annað dótturfélag Arctic Adventures, Adventures Hotel Hof, sem rekur gistingu í Öræfum, hefur einnig verið í greiðsluskjóli. Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, segir í samtali við Viðskiptablaðið að kröfuhöfum þess félags bjóðist svipaðir frjálsir nauðasamningar og hér að ofan er getið.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .