Thor Thors, framkvæmdastjóri Kóða, segir að fyrirtækið hafi verið að bæta stóru kerfin sín tvö, verðbréfakerfið Kodiak OMS og gagnamiðlunarkerfið Kodiak Pro, og sé núna að hugsa sér til hreyfings á erlendri grundu. „Í byrjun maí gefum við út nýja útgáfu sem inniheldur allar upplýsingar um finnska, sænska og danska markaðinn auk þess íslenska. Við erum búnir að setja upp markaðsgagnaþjón í Svíþjóð til viðbótar þeim íslenska og munum því geta dreift markaðsgögnum til viðskiptavina á Norðurlöndunum fyrir e.t.v. einn þriðja af þeim kostnaði sem þeir greiða nú fyrir slíkar upplýsingar,“ segir Thor.

„Þetta lága verð skýrist í raun bara af því að þegar við vorum að byrja þurftum við að vera ódýrir til að eiga möguleika á markaðnum. Yfirbyggingin er mjög létt og allur rekstur er mjög kostnaðarmiðaður. Við ráðum ekki inn nýtt fólk fyrr en við vitum að tekjur fyrirtækisins duga fyrir launagreiðslum. En við erum mjög kröfuharðir þegar að ráðningum kemur og fyrirtækið er mjög vel mannað.“

Hann segir að dæmi um kostnaðaraðhaldið sjáist til dæmis í því að netþjónninn í Svíþjóð er forritaður af fyrirtækinu sjálfu í Erlang forritunarmálinu, sem er frjáls (e. open source) hugbúnaður, hannaður af farsímafyrirtækinu Ericsson. „Hann keyrir á Linux vélum og með þessum hætti hefur okkur tekist að búa til mjög flottar lausnir sem hægt er að keyra á mun minni vélbúnaði en keppinautar okkar eru að gera.“

Ítarlegt viðtal við Thor er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast hér .