Á fyrri helmingi árs 2006 nam tap Kögunar hf. 429 milljónum króna eftir skatta, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um 3.6 milljarða eða 42,6% aukning frá fyrri árshelmingi 2005, úr 8.6 milljörðum í 12.2 milljarða.

EBITDA hagnaður Kögunar var 826 milljónir króna og hækkar um 19% frá sama tímabili 2005.

"Rekstur Kögunarsamstæðunnar á fyrri hluta ársins var að mestu í samræmi við áætlanir stjórnenda að undanskildum fjármagnsliðum en 9,5% veiking ISK innan fjórðungsins hafði veruleg áhrif á fjármagnsliði," segir í tilkynningunni.

Gengistap vegna vaxtaskiptasamnings var 577 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins en á þeim tíma sem liðinn er frá lokum uppgjörs hefur það tap gengið til baka um tæpar 270 milljónir króna.

"Á öðrum ársfjórðungi kemur rekstur EJS hf. inn að fullu sem dótturfélag Skýrr hf. og hefur það áhrif á bæði veltu og EBITDA hlutföll. Horfur fyrir seinni árshelming eru ágætar og eru stjórnendur félagsins bjartsýnir á að markmið um veltu og EBITDA náist," segir í tilkynningunni.

"Þær fjárfestingar sem ráðist var í undir lok síðasta árs hafa nú þegar náð að uppfylla yfirlýst markmið stjórnenda um að stækka hugbúnaðarhluta samstæðunnar um 30-50% á árinu 2006. Áfram er unnið eftir þeirri stefnu að verða eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði Microsoft Dynamics viðskiptalausna," segir í tilkynningunni.

Velta Kögunarsamstæðunnar er áætluð um 22-25 milljarðar króna á árinu og EBITDA er áætluð 1.9-2 milljarðar króna.