Kögunar-samsteypunni, stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins, var samkvæmt úrskurði einkavæðingarnefndar síðastliðinn föstudag meinað að fá gögn vegna söluútboðs Símans. Gunnlaugur M. Sigmundsson, forstjóri Kögunar, telur að þarna sé um alvarlega mismunun að ræða en félagið hafði verið í sambandi við þrjú erlend stórfyrirtæki með fyrirætlanir um að bjóða í Símann.

"Við erum ákaflega ósáttir við að okkur var úthýst og teljum að þarna sé um freklega mismunun að ræða. Maður hlýtur að undrast þessi vinnubrögð en svo virðist sem við getum ekki boðið þótt við hefðum áhuga á að reka félagið til frambúðar. Á meðan fá erlend félög að senda inn tilboð þó þau horfi augljóslega á þetta sem skammtímafjárfestingu," sagði Gunnlaugur í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Þar kemur einnig fram að forráðamenn Kögunar ætla ekki að sætta sig við þessa niðurstöðu og hyggist kanna lagalega stöðu sína. Að sögn Gunnlaugs byggist niðurstaða einkavæðingarnefndar á því að Kögun eigi Skýrr og Skýrr sé með rúm 5% af markaði fyrir internetþjónustu á landinu sem nefndin hefði talið vera í samkeppni við þjónustu Símans. Þetta taldi Gunnlaugur fráleita niðurstöðu. "Menn gera ekki greinarmun á því hvort félag er hluthafi í Skýrr, eins og á við um okkar tilvik, eða hvort um félagið sjálft er að ræða. Það stóð aldrei til að Skýrr sendi inn tilboð."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.