Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir að stjórnvöld hafi misreiknað áhrifin sem viðskiptabann Rússa munu hafa á sjávarútveginn. Það hafi komið í ljós á fundi samráðshóps stjórnvalda sem fram fór síðdegis í gær. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Kolbeinn sagði í viðtali í Morgunútgáfu Rásar 2 í morgun að stjórnvöld hefðu notað hráar tölur frá Hagstofunni sem sýni að viðskipti við Rússland séu í kringum 20 til 23 milljarðar króna á ári.

„En þá gleymist að taka inn í myndina að Hagstofan horfir alltaf á fyrstu löndunarhöfn. Í staðinn fyrir að taka inn tvær stórar uppskipunarhafnir í Evrópu þá er þeim sleppt. Og þá vantar inn í þetta hátt í tíu milljarða,“ segir Kolbeinn.

Hann segir að þegar ákvörðunin um að taka þátt í refsiaðgerðunum hafi verið tekin hafi ekki verið haft samráð við fyrirtæki í sjávarútvegi.