Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri gerði nýverið samstarfssamning við tékkneska ferðatæknifyrirtækið Kiwi.com. Samstarfið felur í sér þróun á tæknilausnum Kiwi með áherslu á snjallsímalausnir og notendaupplifun. Kolibri leggur til þróunarteymi skipað hönnuðum og hugbúnaðarsérfræðingum sem munu vinna með Kiwi að greiningu, útfærslu og þróun á snjallsímalausnum þeirra.

Kiwi er eitt hraðast vaxandi ferðatæknifyrirtæki heims með yfir 2900 starfsmenn víðsvegar um heim. Fyrirtækið hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og er nú með skrifstofur í 19 löndum, meðal annars á Spáni og í Serbíu, Slóvakíu og Bandaríkjunum en höfuðstöðvar félagsins eru í Brno í Tékklandi.

Ívar Þorsteinsson , sölu- og markaðsstjóri Kolibri segir: „Þetta er mjög spennandi samstarf og ákveðin viðurkenning á starfsemi Kolibri á alþjóðavettvangi. Ennfremur þýðir þetta að Kolibri vex og dafnar enn frekar og nú í samstarfi við alþjóðlegan aðila sem er í fararbroddi á sínu sviði. “

Jozef Képesi , tæknistjóri hjá Kiwi.com segir félagið binda miklar væntingar til samstarfsins og þeim hlakki til að fylgjast með framgangi þess. „Þá er mjög áhugavert fyrir okkur að fara í samstarf við íslenskt fyrirtæki, en það hefur Kiwi ekki gert fyrr,“ segir Jozef.

Kolibri er hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtæki sem handleiðir og þjálfar fyrirtæki og stofnanir í þróun og innleiðingu á stafrænum lausnum með framsæknum aðferðum og inngripum í rekstur og ferla. Hjá Kolibri eru nú um 30 starfsmenn sem sinna verkefnum á þessu sviði. Á meðal viðskiptavina eru Tryggingamiðstöðin, Reykjavíkurborg, Marel og Valitor