Félög iðnaðarmanna telja kjarasamninga SA við nokkur verkalýðsfélög, sem undirritaðir voru fyrr í dag, ekki koma nægjanlega til móts við kröfur þeirra. Sáttasemjari hefur boðað til fundar í deilu iðnaðarmanna næstkomandi þriðjudag. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu MATVÍS, Grafía, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Samiðn, Félags hársnyrtisveina og Rafiðnaðarsambands Íslands. Atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um heimild til verkfallsboðunar lýkur klukkan 10 næstkomandi mánudag.

Hilmar Harðarson formaður Samiðnar segir í samtali við Viðskiptablaðið að launaþróunartrygging sé óheppilegt fyrirkomulag kjarabóta fyrir iðnaðarmenn, þeir skipti það reglulega um vinnu. Spurður um það hvort hann telji eðlilegt að félög iðnaðarmanna fái meiri hækkanir en þeir hópar sem skrifuðu undir í dag segir Hilmar að allir hópar á vinnumarkaði hafi sín rök fyrir sinni kröfugerð. Hann vilji ekki tjá sig um það hvort einhverjir fái of mikið eða lítið.