*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 3. nóvember 2011 09:37

Komnir með 44% í Högum

Kjölfestueigendur Haga hafa fullnýtt kauprétt sinn í félaginu með kaupum á 10% viðbótarhlut fyrir rúma 1,3 milljarða króna.

Ritstjórn

Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson, Sigurbjörn Þorkelsson og Tryggingamiðstöðin sem saman mynda stærsta eigendahópinn í félaginu Búvöllum auk lífeyrissjóða hafa fullnýtt kauprétt sinn í Högum. og eiga nú 44% hlut í félaginu.

Gengið í viðskiptunum var 11 krónur á hlut sem er 10% hærra en upphaflegt kaupverð. Kaupverð 10% viðbótarhlutar nú nemur 1.340 milljónum króna.

Í febrúar 2011 seldi Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, 34% af hlut sínum í Högum til Búvalla. Sölunni fylgdi kaupréttur Búvalla á 10% hlut til viðbótar og hefur félagið nú fullnýtt hann, að því er fram kemur í tilkynningu Kauphallarinnar.

Viðskiptin munu endanlega eiga sér stað þann 23. nóvember en þá verða hlutirnir afhentir Búvöllum og greiðsla mun fara fram.

Arion banki tilkynnti á miðvikudagskvöld að stjórn Haga hafi óskað eftir skráningu 20 - 30% hlutar félagsins á hlutabréfamarkað. Stefnt sé að skráningu snemma í desember í kjölfar almenns hlutafjárútboðs.