Komufarþegum hjá Icelandair gæti fækkað um 40 þúsund á næsta ári að mati stjórnenda miðað við fyrri áætlun þar sem eftirspurn mun dragast saman ef fyrirhuguð hækkun stjórnvalda á virðisaukaskatti gengur í gegn. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Stjórnendur Icelandair telja enn fremur að fækka þurfi starfsfólki en ekki fjölga eins og síðustu áætlanir gerðu ráð fyrir. Talið er að afleidd áhrif vegna skattahækkunarinnar gæti numið 15 milljörðum króna í minni gjaldeyristekjum.

„Aukin skattheimta á fyrirtæki í ferðaþjónustu mun ennfremur hafa bein og neikvæð áhrif á samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands og draga úr veltu og arðsemi starfseminnar. Til skamms tíma munu fyrirtækin sjálf bera skattahækkunina að mestu leyti, þar sem ekki er hægt að fleyta henni beint út í verðlag,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.