Alls telja 97% stjórnendur ,þeirra fyrirtækja sem svöruðu ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup meðal stærstu fyrirtækja landsins, að aðstæður í efnahagslífinu séu nú mjög slæmar (62%) eða frekar slæmar (35%), en ekkert fyrirtæki telur þær góðar.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins (SA) í dag en líkt og í samsvarandi könnunum í mars 2009 og desember 2008 meta stjórnendur fyrirtækjanna aðstæður í atvinnulífinu afleitar.

Fram kemur að í síðustu könnun sem gerð var í marsmánuði örlaði á bjartsýni um að aðstæður í efnahagslífinu myndu fara batnandi þegar horft væri hálft til eitt ár fram í tímann. Sú bjartsýni hefur nú að mestu horfið og telur meirihluti fyrirtækjanna (56%) að aðstæður verði verri eftir 6 mánuði, en aðeins 12% að þær verði heldur betri.

Líkt og sjá má á vísitölu efnahagslífsins eru aðstæður nú afleitar í íslensku efnahagslífi samkvæmt könnun meðal 500 stærstu fyrirtækja landsins. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri, en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Sjá nánar vef SA.