Konur eru nú í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í fyrsta sinn í 19 ár eða síðan árið 1994 þegar þær voru síðast fleiri en karlar. Kynjahlutföll eru jöfn hjá Sjálfstæðisflokki í borginni, borgarfulltrúi VG er kona og tveir af þremur hjá Samfylkingunni. Tvær konur frá Besta flokknum eru jafnframt í borgarstjórn af sex flokksmönnum sem þar sitja.

Fram kemur um málið í Fréttablaðinu í dag að af 15 borgarfulltrúum eru 8 konur. Staðan breyttist í byrjun mánaðar þegar Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók við af Gísla Marteini Baldurssyni, sem hætti til að taka við þáttastjórn í Ríkissjónvarpinu.

Hildur segir í samtali við Fréttablaðið þetta ánægjulega þróun og skipta máli að rödd kvenna sé sterk í þessu starfi.