Tvær konur gefa kost á sér til að leiða lista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Það eru þær Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir. Báðar hafa þær starfað að borgarmálum um nokkurt skeið. Líf tilkynnt um framboð í dag en nokkuð er liðið frá því að Sóley tilkynnti framboð sitt.

„Við búum í ólíkum hverfum, við ólíkar aðstæður“ segir Líf „samt eigum við ótal margt sameiginlegt. Ég hef fundið fyrir því að að Reykvíkingar vilja hafa bein áhrif á borgina sína,“ segir Líf í framboðstilkynningu.

Líf er fædd árið 1974. Hún er í sambúð með Snorra Stefánssyni lögmanni og eiga þau fjögur börn á aldrinum eins til þrettán ára. Þau búa í Vesturbæ Reykjavíkur. Líf er grunnskólakennari að mennt og lýkur í vor meistaragráðu í íslenskukennslu.