Nýr verslunarkjarni, Korputorg, mun opna við Vesturlandsveg í október. Húsnæðið er um 45.5000 fermetrar að stærð auk þess sem 2500 fermetra húsnæði mun rísa við hlið kjarnans og hýsa ýmsa starfssemi olíufélagsins N1.

Arnar Hallsson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Stekkjarbrekku ehf. sem sér um byggingu kjarnans, segir að búið sé að ráðstafa um 75% hluta húsnæðisins og viðræður standi við ýmsa aðila um útleigu þess hluta sem eftir er.

„Við erum að klára frágang utanhúss og ljúka við að innrétta búðir þannig að allt verði klárt við opnun í október. Við munum opna húsið með um 20.000 fermetrum sem jafngildir nokkurn vegin því plássi sem Kringlan opnaði með á sínum tíma,” segir Arnar.

Þær verslanir sem verða starfræktar við opnun verða Rúmfatalagerinn, Bónus, Toys 'R' Us, Europris, ILVA, The Pier  og Office 1 mun opna stuttu síðar.

Annað pláss mun standa autt til að byrja með en eftir er að leiga út um fjórðung húsnæðis.

Hagkvæmari húsaleiga

Arnar segir mikinn áhuga og bjartsýni hafa ríkt fyrir tveimur árum þegar vinnan við framkvæmdina fór í gang. Einhverjir aðilar sem sýndu áhuga í upphafi hafi dregið sig til baka en allir sem hafi skrifað undir leigusamning halda sínu striki óbreyttu.

Hann segir húsnæðið vera þess eðlis að hægt sé að bjóða fyrirtækjum upp á mjög hagkvæma húsaleigu miðað við aðra stærri verslunarkjarna, t.d. Smáralind og Kringluna.

Tafir hafa orðið á uppbyggingu þeirra hverfa sem standa nálægt Korputorgi en þær hafa ekki haft teljandi áhrif á áform Stekkjarbrekkna. Meira máli skiptir aðgerðarleysi Reykjavíkurborgar að mati Arnars.

„Við eigum að greiða hundruð milljóna í gatnagerðargjöld sem eiga að mæta kostnaði við vegtengingar sem eiga að liggja að húsinu. Og þau fyrirheit hafa ekki staðist. Við höfum verið að vinna að lausnum með borgaryfirvöldum á síðustu misserum til að tryggja aðkomu að húsinu og erum á góðri leið með að tryggja gott aðgengi að húsinu. Íslendingar ferðast flest í bílum og góðar vegtengingar eru lykilatriði,” segir Arnar.

Nálægð við Grafarvoginn skiptir miklu máli að sögn Arnars. Hann segir almenna þjónustu við íbúa Grafarvogs ekki góða og telur mikla eftirspurn vera eftir þjónustu þeirra verslana sem munu hýsa Korputorg.

„Til skamms tíma litið er það alveg nógu stór markaður fyrir okkur. Hins vegar hafa tafir við Úlfarsfell og Geldingarnes haft þau áhrif að verkefnið sem slíkt það breyst frá því sem áður var.”

______________________________________

Nánar er fjallað um byggingu Korputorgs í viðtali við Arnar Hallsson, framkvæmdastjóra Stekkjarbrekkur ehf., í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .