Kortaþjónustan fagnar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í kjölfar þess að Greiðslumiðlun, Kreditkort og Fjölgreiðslumiðlun viðurkenndu ólöglegt samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu sinni með aðgerðum sem beindust gegn Kortaþjónustunni. Niðurstaðan er fagnaðarefni fyrir seljendur vöru og þjónustu jafnt sem neytendur, segir í frétt frá Kortaþjónustunni.

„Þessi niðurstaða er fagnaðarefni og kemur alls ekki á óvart. Frá því við komum inn á markaðinn 2002 höfum við vitað að samkeppnisaðilar okkar ætluðu að koma okkur út af markaðnum en við fórum að bjóða betri kjör og örari uppgjör en höfðu verið í boði á Íslandi. Okkur var beinlínis tilkynnt að það ætti að gera útaf við okkur. Við munum nú fara ítarlega yfir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Við höfum orðið fyrir umtalsverðu fjárhagstjóni vegna þessa samráðs og ljóst að við munum undirbúa höfðun skaðabótamáls vegna þess,“ segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.