Alþjóðlegu kortafyrirtækin VISA og Mastercard íhuguðu alvarlega að svipta Valitor og Borgun leyfum til færsluhirðingar í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vitnar í orð Viðars Þorkelssonar, forstjóra Valitor, sem hann lét falla á ráðstefnu CAC í gær. Í erindi sínu fjallaði Viðar m.a. um dagana eftir hrunið og segir að mikil hætta hafi verið á algjöru hruni. Mikið traust á milli VISA og Mastercard annars vegar og íslensku fyrirtækjanna hins vegar hafi hins vegar komið íslenskum kortanotendum til bjargar.

Samhæft átak hafi þurft til þess að koma í veg fyrir að greiðslumiðlunarkerfið stöðvaðist og þar hafi Seðlabankinn og Reiknistofa bankanna leikið stórt hlutverk. Fundað hafi verið í Seðlabankanum nokkrum vikum fyrir hrun og áætlun gerð sem gripið skyldi til ef bankakerfið hikstaði.