Kortaþjónustan undirbýr nú málsókn á hendur Valitor, Borgun og Greiðsluveitunni „til að fá bættan þann skaða sem hið langvarandi ólöglega samráð olli Kortaþjónustunni“, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Félagið telur að almenningur í landinu eigi rétt á að vita sannleika málsins.og því hafi vefurinn kortasamrad.is verið opnaður.

Yfirlýsing Kortaþjónustunnar:

„Vegna ítrekaðra fullyrðinga Ragnars Önundarsonar í fjölmiðlum um að gögnum úr kortasamráðsmálinu sem verið hafa til umfjöllunar síðustu daga hafi verið lekið úr Samkeppniseftirlitinu vill Kortaþjónustan koma eftirfarandi á framfæri:

Kortaþjónustan fékk umrædd gögn í hendur á grundvelli upplýsingalaga eftir mikla baráttu við Valitor, Borgun og Greiðsluveituna, sem unnu hart gegn því að gögnin yrðu afhent. Sú barátta er e.t.v. skiljanleg í ljósi þess hversu greinilega gögnin sýna brotavilja félaganna gegn Kortaþjónustunni og reyndar fleiri fyrirtækjum. Gögnin fengust loks afhent, enda reyndist það réttur Kortaþjónustunnar sem brotaþola að fá aðgang að þeim.

Kortaþjónustan undirbýr málsókn á hendur Valitor, Borgun og Greiðsluveitunni til að fá bættan þann skaða sem hið langvarandi ólöglega samráð olli Kortaþjónustunni. Um leið teljum við að almenningur í landinu eigi rétt á að vita sannleikann í þessu máli og sjá með eigin augum hvernig þessi félög, stjórnendur þeirra og eigendur, höguðu sér þegar nýr keppinautur sem raskaði einokunarstöðu þeirra kom á markaðinn.

Þess vegna birtum við hjá Kortaþjónustunni málsgögnin á vef sem sérstaklega hefur verið opnaður í þeim tilgangi, www.kortasamráð.is . Hluti gagnanna er þegar kominn í birtingu og á næstu vikum verða öll gögn málsins þar sýnileg. Ásakanir Ragnars um að gögnum sé lekið til fjölmiðla frá Samkeppniseftirlitinu eiga því ekki við nein rök að styðjast.

Kortaþjónustan hvetur Ragnar Önundarson hins vegar til að halda áfram að greina frá ólöglegu samráði banka og fjármálafyrirtækja, því þar staðfestir hann grun okkar um að samráð á kortamarkaði á Íslandi sé mun umfangsmeira og alvarlegra en það mál sem dómssáttin frá 2008 náði til. Kortaþjónustan hefur bent samkeppnisyfirvöldum á þetta, m.a. með kvörtun í apríl 2009 og hvetjum við Samkeppniseftirlitið til að rannsaka það mál ítarlega, sem og fleiri mál tengd kortamarkaðnum á Íslandi sem nú eru á borði stofnunarinnar.“