*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 9. nóvember 2017 15:15

Kosið um sameiningu Sandgerðis og Garðs

Sameinað sveitarfélag hefði tæplega 3.400 íbúa, en tæpir 6 kílómetrar eru milli byggðanna. Kosið er á laugardag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kosið verður um sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs á laugardaginn kemur, þann 11. nóvember næstkomandi.  Bæjarstjórnir sveitarfélaganna skipuðu samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna síðasta haust sem var ætlað að kanna kosti og galla mögulegrar sameiningar.

Niðurstöður voru kynntar íbúum í maí og á fundum bæjarstjórna sveitarfélaganna í júní var ákveðið að fram fari atkvæðagreiðsla meðal íbúanna um hvort sveitarfélögin verði sameinuð. Atkvæðagreiðslan fer fram næstkomandi laugardag þann 11. nóvember.

Síðustu vikur hefur samstarfsnefndin staðið fyrir kynningu á tillögu um sameiningu sveitarfélaganna og forsendum hennar og meðal annars haldið íbúafundi í hvoru sveitarfélagi fyrir sig.

Tæplega sex kílómetrar skilja byggðarlögin að en sveitarfélögin eru að mörgu leyti lík og með svipaðan íbúafjölda, Sveitarfélagið Garður með 1.625 íbúa og Sandgerðisbær með 1.760 íbúa. Gríðarleg íbúafjölgun hefur verið í báðum sveitarfélögum síðustu ár segir í fréttatilkynningu um málið, en samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaganna yrði 3.385 manns.