Kosningabarátta framboðanna fimm í Reykjavík kostaði vart undir 200 milljónum króna. Auglýsingar voru þó minni en fjölmiðlar höfðu gert ráð fyrir og ber sérfræðingum sem Viðskiptablaðið hefur rætt við saman um að taugatitringur, sem iðulega brestur á undir lok kosningabaráttu með tilheyrandi auglýsingaflóði, hafi ekki gert vart við sig að þessu sinni.

Þorsteinn Þorsteinsson, forstöðumaður markaðssviðs Ríkisútvarpsins, segir að þetta hafi verið einhver rýrasta kosningavertíð sem hann hafi kynnst. "Þegar þetta gerist mest hlaupa tekjur okkar af kosningabaráttu á tugum milljóna, en sú er ekki raunin núna," segir Þorsteinn.

Eins og fram kemur í úttekt Viðskiptablaðsins í dag gefa rannsóknir misvísandi niðurstöður um hvort fjáraustur í kosningabaráttu skili árangri. Sumir fræðimenn telja að hann skipti engu máli, en aðrir telja að peningum sé vel varið til að koma í veg fyrir að frambjóðandi tapi beinlínis kosningum þótt þeir skili almennt ekki miklu viðbótarfylgi.

Viðskiptablaðið rýnir einnig í úrslitin og kemst að því að Samfylkingin hefði þurft að hirða 0,7 prósentustig af Framsóknarflokknum til að fella Björn Inga Hrafnsson og koma Oddnýju Sturludóttur að sem fimmta manni sínum. Einnig kemur í ljós að ef Frjálslyndi flokkurinn hefði fengið sama fylgi og síðast hefðu R-listaflokkarnir haldið velli.

Úttekt er á kostnaði við kosningabaráttuna í Viðskiptablaðinu í dag.