Kostnaður félaganna þriggja, CNOOC, Petoror g Eykon Energy við olíuleitina, sem staðið hefur frá árinu 2014, liggur ekki fyrir, en tvö félaganna skiluðu í síðustu viku sérleyfi sínu til leitar og vinnslu á olíu á svæðinu. Eykon stendur því eitt eftir.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma hins vegar að kostnaður fyrirtækjanna sé að minnsta kosti fimm milljarðar og sennilega töluvert hærri. Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy, segir fyrirtækið nú leita að samstarfsaðila til að koma að áframhaldandi fjármögnun verkefnisins. „Við einir og sér ættum erfitt með að fjármagna þetta en við höfum sýnt fram á frá upphafi að við getum fengið aðra með okkur,“ segir Heiðar. Hins vegar sé óheppilegt að fá þessi skilaboð frá Orkustofnun. Heiðar er auk þess ósammála orkumálastjóra um eignarhald á þeirri þekkingu sem fyrirtækin hafa aflað sér.

„Við eigum áfram vinnuna en Orkustofnun þekkir svo sem orðið svæðið en þeir mættu ekki gefa einhverjum öðrum vinnuna. Viðkomandi þyrfti að kaupa hana af okkur. En við sem leyfishafi eigum frumgögnin og getum notað gögnin ef einhver góður aðili kemur inn með okkur,“ segir Heiðar.

„Eykon á þau gögn og vinnu sem hefur verið unnin síðastliðin fjögur ár. Nýr aðili sem kæmi inn með Eykon nyti góðs af því en þyrfti samt að borga eitthvert gjald, sem væri töluvert lægra en ef nýr aðili kæmi inn, til þeirra sem hafa safnað gögnunum gegnum tíðina.“ Heiðar er enn fremur undrandi á tímasetningu CNOOC og Petoro. „Það sem er sérstaklega óheppilegt og sérkennilegt er að við funduðum í nóvember til að taka ákvörðun um framhaldið. Á honum var ákveðið að fara í grunnboranir og frekari vinnu og skila ekki inn leyfinu. Núna, degi áður en frestur rennur úr, ákveður CNOOC að skila inn leyfinu og Petoro fylgir á eftir,“ segir Heiðar. Á mánudaginn lauk fjögurra ára tímabili til að taka tvívíðar hljóðbylgjumyndir af Drekasvæðinu.

„Þá þarf að vera búið að taka ákvörðun um hvaða vinnu við ætlum að gera. Sá fundur var fundurinn í nóvember. En svo núna, á síðustu sekúndum sem hægt var að taka ákvörðun um eitthvað annað ákveður CNOOC að gera það. Þannig að þetta kemur okkur á óvart,“ segir Heiðar, sem hefur ekki skýringar á því hvers vegna CNOOC ákvað að draga sig út úr verkefninu. „Þetta er svo mikil stefnubreyting allt í einu. Ef eitthvað er er olíuverð og allar aðstæður meira með okkur nú en í sumar. Þá spyr maður sig hvort þetta sé eitthvað pólitískt,“ segir Heiðar.

Þyrftu sex til tólf mánuði

„Miðað við síðasta sumar hefur olíuverð hækkað um hátt í 50% og sýnt hefur verið fram á að borkostnaður á svona svæðum hefur lækkað gríðarlega. Olíuframboð er ekkert að aukast en áhugi manna á að fara í olíubransann er sífellt að aukast,“ segir Heiðar. „Þetta verkefni hefur í sjálfu sér ekki litið betur út í þrjú eða fjögur ár. En hvort einhver hoppi á vagninn innan svona skamms tíma vitum við ekki og vitum ekki hvort við höfum bara tvær vikur til að fá einhvern inn. Það er nánast ómögulegt. En ef við fengjum sex til tólf mánuði, þá ætti ég von á að við fengjum einhvern almennilegan inn,“ segir Heiðar og vekur athygli á að Ísland noti meiri olíu en Bandaríkin, miðað við höfðatölu, og að „flugið í Keflavík sem vex og vex svo mikið að það skiptir engu máli hvað við gerum í bílamálum. Það er bara brotabrot af vexti hvers árs í flugi,“ segir Heiðar og bendir á að Ísland flytji inn gríðarlegt magn olíu, sem nær væri að dæla upp hérlendis.

„Yfirlýsingar síðustu tveggja umhverfisráðherra hafa ekki verið heppilegar fyrir þá sem ætla að vera í olíuvinnslu hér. Það sem er hins vegar sérkennilegt er að árið 2012 markaðssetti íslenska ríkið þetta. Síðan þegar er búið að veita leyfin fara menn allt í einu að vera á móti þessu. Það er ekki fagleg stjórnun,“ segir Heiðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .