Sú ákvörðun stjórnar Marks & Spencers að reka fjóra af stjórnendum fyrirtækisins kemur til með að kosta það í það minnasta 10 milljónir punda. Þetta kemur fram í ársskýrslu fyrirtækisins sem lögð var fram í gær.

Ekki nóg með að stjórnendurnir fái sem svarar árslaunum, ýmiskonar hlunnindi og bónusa heldur munu þeir einnig hagnast verulega á þeim miklu hækkunum sem orðið hafa á gengi félagsins undanfarið í kjölfar þess að Phillip Green greindi frá því að hann væri að íhuga að gera tilboð í félagið. Stjórnendurnir geta á næstu 12 mánuðum leyst inn hagnað sinn vegna hlutabréfaívilnanna og annara bónusa.

Luc Vandevelde, fyrrum stjórnarformaður félagsins, á kauprétt á meira en 4,5 milljónir hluta sem hann má leysa til sín á bilinu 261 pence til 350 p. Í gær var virði þessara hluta um 4,62 milljónir punda. Vandevelde, sem fékk öll sín laun í hlutabréfum, mun einnig fá sem svarar 162.000 hlutum vegna missis á skrifstofuaðstöðu. Það lyftir lokagreiðslu hans upp yfir 5,2 milljónir punda.

Byggt á netútgáfu The Daily Telegraph