Kostnaður vegna bifreiðareksturs og notkunar hefur hækkað mikið á liðnum misserum samkvæmt niðurstöðum Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Bensínlítrinn er tæpum 40 krónum dýrari um þessar mundir samanborið við verðið fyrir ári síðan og dísillítrinn er 40 krónum dýrari. Þetta stafar aðallega af miklum hækkunum á heimsmarkaði, veikri íslenskri krónu og skattahækkunum stjórnvalda. Aðrir útgjaldaliðir vegna bifreiðaeignar hafa einnig hækkað hressilega. Þetta kemur fram á vefsíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Nýjustu neysluvísitölumælingar Hagstofunnar sýni að kostnaður vegna þjónustu hjólbarðaverkstæða hafi hækkað um 18,1% og smurstöðva um 15,9% á einu ári. Viðgerðar- og viðhaldsþjónusta hafi hækkað um 6,2% á sama tíma. Liðurinn hjólbarðar og fl. hefur hækkað um 9% en varahlutir og fl. Um 4,8% á sama tíma. Þar segir einnig að hjólbarðaþjónustuaðilar geti ekki réttlætt þessa miklu hækkun á sinni þjónustu með launaþróun þannig að nærtækasta skýringin sé hærri álagning og hugsanlega áhrif af nýlegri yfirtöku banka, lífeyrissjóða og fjármálastofnana á stærstu fyrirtækjunum í þessum geira.

Heildarhækkun vísitölu bifreiðakostnaðar er 12,6% samanborið við október 2010 og þar vegur eldsneytið þyngst. Nýir bílar hafa hækkað um 5% samkvæmt vísitölunni en vog þeirra í bifreiðakostnaðinum er 45,8%.