Rannsókn hefur sýnt að kostnaður vegna opinberra verkefna fari í fjórum af fimm tilvikum 45% fram úr kostnaðaráætlun. Á fundi uum fjármögnun nýs Landspítala benti Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur við Háskólann í Reykjavík á þetta, en greint var frá málinu í fréttum Ríkissjónvarpsins. Nú er gert ráð fyrir því að fyrsti áfangi byggingarinnar muni kosta um 45 milljarða króna, en Katrín segir að kostnaðurinn verði aldrei svo lítill.

Þegar tekinn væri með kostnaður við endurnýjun húsnæðis og tækjakostar yrði heildarkostnaðurinn við áfangann um 63 milljarðar. Þegar kostnaður vegna annars áfanga er tekinn með bætast um 30 milljarðar við þessa tölu. Hún geti þó verið vanmetin og því gæti allt eins farið að endanlegur kostnaður við nýtt sjúkrahús verði um 135 milljarðar.

Á sama fundi sagði María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, að áætlanir hans væru vandaðar og stæðust. Hún benti á hagræðingu vegna nýs húss og vaxandi þörf þjóðarinnar fyrir sjúkrahúsþjónustu eftir því sem hún eldist.