*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 10. maí 2017 10:20

Kostnaðurinn allt að 90% hærri

Sjúklingar sem ekki fengu greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga hér á landi fyrir liðskiptaaðgerð nýttu sér EES reglur til að fara til Svíþjóðar.

Ritstjórn
Skurðstofa
Aðsend mynd

Vegna þess að sjúklingarnir uppfylltu svokallað biðtímaákvæði í EES tilskipun þess efnis, gátu fimm sjúklingar sem ekki komust að í liðskiptiaðgerðir í Klíníkinni í Ármúla farið til Svíþjóðar í einkarekna stofu þar.

Þar sem sjúklingarnir uppfylltu það skilyrði að biðtíminn væri lengri en 90 dagar greiða Sjúkratryggingar Íslands allan sjúkrakostnað, ferða- og uppihaldskostnað ásamt kostnaði fyrir fylgdarmann að því er Morgunblaðið segir frá.

Sjúkratryggingar höfnuðu greiðsluþátttöku

Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarlæknir hjá Klíníkinni í Ármúla, sem sjúkratryggingarnar höfnuðu að greiða fyrir aðgerðirnar hjá, fór út með sjúklingunum en hann reiknar með að allir sjúklingarnir verði á heimferð í lok vikunnar enda á batavegi.

„Það er alveg augljóst að það er mun dýrari kostur að gera þetta í Svíþjóð en heima í Ármúlanum,“ segir Hjálmar, sem reiknar með að kostnaðurinn sé 80-90% dýrari fyrir sjúkratryggingakerfið á Íslandi að fólk nýti sér þessa heimild.

Læknir segir þetta leikhús fáránleikans

„Við getum ekki sem þjóð, skapað réttindi fyrir sjúklinga ef þeir verða að flýja land til að sækja þau réttindi. Þetta er orðið leikhús fáránleikans.Við erum að sóa lífsgæðum fólks sem er að bíða eftir aðgerðum. Við erum að borga allan sjúkrakostnað og allan lyfjakostnað á meðan fólk er að bíða. Þetta er ekki skynsamlega farið fjármuni.“

Hjálmar segir þessa tiltekna einstaklinga hafa verið þeir sem voru lengst á biðlista hjá sér og ekki getað beðið lengur, þó hann hefði kosið að gera aðgerðirnar sjálfur hér á landi. „Mér voru aðrar bjargir bannaðar.“