Það mun taka Ísland nokkurn tíma að ná fyrri stöðu auðs og framleiðslu, sem tapaðist í hruninu, segir Julie Kozack, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gagnvart Íslandi. Viðtal við Kozack verður birt á vefsíðu sjóðsins í kvöld, í tilefni af alþjóðlegri ráðstefnu íslenskra stjórnvalda, Seðlabankans og AGS sem haldinn verður næstkomandi fimmtudag í Hörpu. Á ráðstefnunni verður fjallað um lærdóma af efnahagskreppunni og verkefnin framundan. Meðal fyrirlesara eru hagfræðingarnir Paul Krugman og Willem Buiter.

Kozack segir í viðtalinu að því miður hafi skuldir heimila, fyrirtækja og ríkisins hækkað vegna uppgangs og síðan hruns kerfisins. Spár geri ráð fyrir hóflegum bata, sem muni ekki taka við sér af fullum krafti fyrr en búið er að vinna úr skuldastöðu heimila og fyrirtækja.

Um skuldabréfaútboð ríkisins á erlendum mörkuðum segir kozack að fjármögnunin hafi verið afar mikilvæg. Ríkið hafi þannig endurfjármagnað lán sem féllu fljótlega á gjalddaga og að þátttaka í útboðinu sýni að aukið traust ríki á fjármálamörkuðum um að efnahagsástandið á Íslandi fari batnandi. Hún segir árangurinn auðvelda afnámi gjaldeyrishafta.