Kvartanir frá viðskiptavinum dönsku stórvöruverslunarinnar Magasin du Nord, sem er að mestu leyti í eigu íslenskra fjárfesta, hafa leitt til þess að umboðsmaður neytenda í Danmörku hefur kært fyrirtækið til lögreglu, segir í frétt danska viðskiptablaðsins Børsen.

Børsen segir að ástæðan sé villandi auglýsingar um páskana þar sem sagt var að 25% afsláttur væri á vörum búðarinnar þremur dögum fyrir páska. En við nánari athugun var tekið fram að aðeins var um valdar vörur að ræða.

Umboðsmaður neytenda segir auglýsingarnar villandi og að hægt sé að túlka þær þannig að átt sé við allar vörur í búðinni en ekki einungis valdar vörur. Bent er á að auglýsingarnar brjóti hugsanlega í bága við samkeppnislög í Danmörku.