*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 2. maí 2013 14:31

Karl á ekki 400 milljóna forgangskröfu í Askar

Hæstiréttur sneri í vikunni við úrskurði héraðsdóms og segir kröfu Karls Wernerssonar í þrotabú Aska ekki veðkröfu.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Hæstiréttur sneri í vikunni að hluta til við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um 406,4 milljóna kröfu Karls Wernerssonar í þrotabú Aska Capital. Karl hafði lánað bankanum 300 milljónir króna þann 18. september 2008 og telur Hæstiréttur engan vafa leika á lánveitingunni og eins telur dómurinn að Askar hafi ekki greitt lánið og því eigi Karl kröfu í þrotabúið.

Hvað varðar stöðu kröfunnar í kröfuröðinni kemst Hæstiréttur hins vegar að annarri niðurstöðu en Héraðdsómur Reykjavíkur. Í héraði var fallist á það með Karli að lánið hefði verið veitt með veði í þriðjungshlut Aska í félaginu OLC (India) BuyCo ehf. og því beri að líta á kröfu Karls sem veðkröfu skv. 111. gr. gjaldþrotalaga sem gerir hana að forgangskröfu.

Í dómi Hæstaréttar segir hins vegar að líta verði svo á að veðsetning eignar hlutafélags til að tryggja skuld við stjórnarformann þess hljóti almennt að teljast til óvenjulegrar ráðstöfunar í skilningi laga og því hafi þurft að fá heimild stjórnar til þess gjörnings. Þá verði að hafa í huga að eignarhluturinn í OLC hafi verið 1,1 milljarða króna virði í ársreikningi Aska fyrir árið 2008 og að eigið fé Aska hafi verið neikvætt um 848,9 milljónir í árslok 2007 og neikvætt um 2,5 milljarða í árslok 2008. Því beri að telja veðsetninguna til mikils háttar ráðstafana.

Stjórn Aska, sem skipuð var sjö mönnum, ekki ákvörðun um veðsetninguna og segir í dómnum engu skipta þótt Karl, tveir aðrir stjórnarmenn og einn varamaður hafi verið á fundinum þegar ákvörðun var tekin um veðsetninguna. Því beri að líta á kröfuna sem almenna kröfu í þrotabú Aska.