Björgunar og hreinsiaðgerðir vegna olíuleka úr Goðafossi við Noreg í fyrra kostuðu 85 milljónir norskra króna. Það jafngildir um 1,7 milljarði íslenskra króna. Norska strandgæslan undirbýr nú kröfu á hendur Eimskip vegna kostnaðarins. Úr skipinu láku 105 tonn af olíu. Þetta kemur fram á vef Aftenposten í dag.

Slysið varð í febrúar þegar Goðafoss strandaði í Óslóarfirði við Hvaler. Svæðið þar í kring hefur verið skilgreint sem þjóðgarður.. Talið er að olíulekinn hafi valdið því að helmingur æðarfugls á svæði nálægt lekanum hafi drepist auk þess sem mengunar gætti í fiski.

Rannsóknarnefnd sjóslysa í Noregi telur skipstjóra Goðafoss bera töluverða ábyrgð á því að skipið strandaði. Hann var einn í brúnni þegar slysið varð en hafnarsögumaðurinn var nýlega farinn frá borði, fyrr en vant er.

Samkvæmt frétt Aftenposten hafa forsvarsmenn Eimskipa ekki viljað tjá sig um málið.