Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, fór fram á það í Hæstarétti í gær að refsing yfir þeim Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, verði þyngd vegna lánveitingar til Milestone í svokölluðu Vafningsmáli. Fram kom í ítarlegri umfjöllun málið á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is , í gær, að Helgi Magnús er ósammála því mati héraðsdóms að brotið sé minniháttar og vill að við ákvörðun refsingar veðri litið til Exeter-málsins. Þar voru þyngstu dómarnir fjögur og hálft ár.

Helgi Magnús flutti málið af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti í gær.

Vafningsmálið var eitt af fyrstu málunum sem til rannsóknar var hjá embætti sérstaks saksóknara. Rannsóknin kom fyrir augu almennings þegar embættið gerði húsleit í höfuðstöðvum Milestone, Sjóvár og m.a. á heimilum fyrrverandi stjórnarmanna í júlí árið 2009.

Sérstakur saksóknari fór fram á fimm og hálfs árs fangelsis yfir Lárusi og fimm ára fangelsis yfir Guðmundi. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þá í níu mánaða fangelsi á milli jóla og nýárs árið 2012. Sex mánuðir af fangelsisdómnum voru skilorðsbundnir. Verjendur Lárusar og Guðmundar vilja hins vegar að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir.

Gert er ráð fyrir því að dómur falli í Vafningsmálinu í Hæstarétti í næstu eða þarnæstu viku, að því er fram kemur í umfjöllun mbl.is.