Stærstu hagkerfi heims hafa eytt 10.000 dölum á mann, jafnvirði ríflega 1,2 milljóna króna, til að takast á við hrunið á fjármálamörkuðum sl. ár. Ríkin sem um ræðir eru í G20 hópnum og samanlagt hafa þau ríki eytt 10.000 milljörðum dala í þessu skyni, samkvæmt útreikningum BBC sem byggjast á gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í frétt BBC segir að Bretland hafi eytt langsamlega mestu, eða 94% af eigin landsframleiðslu. Í Bandaríkjunum, sem sé í öðru sæti, sé þetta hlutfall 25%. Þetta jafngildi 30 þúsund pundum á mann í Bretlandi, eða rúmum 6 milljónum króna.

Stærstur hluti þessara framlaga ríkisins hafi verið í formi ríkisábyrgðar til bankakerfisins og þegar kerfið jafni sig fái ríkið megnið af þessum upphæðum til baka, en þó ekki allar.

Frétt BBC