Lægri stýrivextir myndu ekki lækka gengi krónunnar og því ætti Seðlabankinn að nýta tækifærið og byrja að lækka vexti sem fyrst, að sögn Kristínar Pétursdóttur, forstjóra Auðar Capital. Þetta kemur fram í frétt Rúv. Seðlabanki Íslands ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 15,5%, líkt og margir áttu von á. Hún segir í samtali við Rúv að lausafjárkreppan dugi til að hægja á efnahagslífinu. Þeir sem á annað borð fái lán fái þau á gríðarháum vöxtum. Kristín segir í frétt Rúv að hér ríki sérstakt ástand, þar sem markaður með vaxtamunarviðskipti sé nánast óvirkur. Það þýði að þó Seðlabankinn myndi lækka vexti, þá myndi það líklega engin áhrif hafa á gengi krónunnar til lækkunar eins og það myndi gera, ef markaðir væru eðlilegir.