Ný stjórn var kosin á aðalfundi Uppreisnar , ungliðahreyfingar Viðreisnar, á laugardag. Auk þess var samþykkt breyting á nafni þriggja embætta félagsins, í skyni kynhlutleysis.

Kristófer Alex Guðmundsson var kjörinn forseti, Kolfinna Tómasdóttir varaforseti, Starri Reynisson alþjóðafulltrúi, María Dís Knudsen gjaldkeri, og Ari Páll Karlsson viðburðarstjórnandi.

Embættin sem nafnabreytingin náði til voru formaður, sem varð forseti, varaformaður, sem varð varaforseti, og viðburðarstjóri, sem varð viðburðarstjórnandi. Þá var einnig samþykkt að fækka embættum úr 7 í 5, með niðurfellingu embættanna ritari og formaður miðstjórnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var viðstödd og óskaði nýkjörinni stjórn góðs gengis, og þakkaði fráfarandi stjórn fyrir störf sín.