Hlutafé Kríta hf. var aukið um 50 milljónir í lok síðasta árs og þar með tvöfaldað. Hlutafjáraukningin var að sögn félagsins gerð til að styðja við vöxt fyrirtækisins sem hafi verið um 60% á milli mánaða frá því að Kríta hóf að markaðssetja fjármögnunarþjónustu sína.

„Fjármögnunarstarfsemi Kríta hefur vaxið ört á milli mánaða frá því að fyrirtækið hóf að bjóða litlum og meðalstórum fyrirtækjum fjármögnunarþjónustu í maí á síðasta ári. Þar sem þessi vöxtur er meiri en reiknað var með var ákveðið að auka hlutafé í félaginu og þar með getu fyrirtækisins til að þjónusta fyrirtæki með fjármagn," segir Sigurður Freyr Magnússon, forstjóri Kríta.

Kríta er fjártæknifyrirtæki sem starfar á fyrirtækjamarkaði og nýtir nýjustu tæknilausnir til að gera örugga fjármögnun fyrir fyrirtæki aðgengilega með skilvirkum og skjótum hætti.

,,Kríta hefur verið afar vel tekið í atvinnulífinu og markaðurinn þarf greinilega á fjármögnunarþjónustu að halda sem veitt er utan hins hefðbundna bankakerfis. Við finnum fyrir því að viðskiptavinir okkar kunna að meta hvernig tæknin er höfð í öndvegi til að hraða fjármögnunarferlinu og það sé að fullu rafrænt. Framtíðarsýn Kríta er að auka þjónustuna við viðskiptavini og bjóða fyrirtækjum fjölbreyttar fjármögnunarleiðir sem byggja á hraða og sjálfvirkni. Þessi mikli vöxtur í fjármögnunarþjónustu fyrirtækisins rennir frekari stoðum undir þá sýn að þörf er á nýsköpun á þessum markaði," segir Sigurður Freyr ennfremur.