Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sigurðar Einarssonar gegn þrotabúi Kaupþings banka. Í úrskurðinum er samþykkt ákvörðun slitastjórnar Kaupþings um að viðurkenna kröfu Sigurðar í þrotabúið einungis að hluta.

Slitastjórnin samþykkti kröfu Sigurðar upp á rúmar 73 milljónir í þrotabúið en hafnaði viðbótarkröfu Sigurðar sem hljóðaði upp á rúmar 138 milljónir króna. Þessi ákvörðun hefur nú verið staðfest af Hæstarétti.

Kröfur Sigurðar snéru að launum við starfslok hans eftir fall bankans. Eins og segir í dóminum þá deildu aðilar um það hvort Sigurður ætti rétt á biðlaunum í 12 mánuði eftir starfslok auk lífeyrisgreiðslna samkvæmt ráðningarsamningi og hvort Kaupþing hefði ábyrgst að greiða skattaskuld Sigurðar í Bretlandi. Talið var að 6 mánaða uppsagnarfrestur væri sanngjarn frestur í skilningi laga í ljósi þeirra uppsagnarfresta sem tíðkaðist almennt á vinnumarkaði, svo og með tilliti til stöðu og starfskjara Sigurðar að öðru leyti.