Kröfum kæranda um ógildingu sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík hefur verið hafnað og því verða kosningarnar ekki endurteknar. Frá þessu er sagt á vef Reykjavíkurborgar.

Björgvin E. Vídalín Arngrímsson, formaður Dögunar í Reykjavík, kærði kosningarnar í Reykjavík, m.a. á grundvelli þess að Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina, hafi skort kjörgengi og að annmarkar hafi verið á talningu í Ráðhúsinu á kosninganótt. Þá taldi kærandi að það hlyti að leiða til ógildingar kosninga að dregist hafi í þrjú ár að kjósa yfirkjörstjórn í Reykjavík.

Sýslumaðurinn í Reykjavík skipaði þriggja manna kjörnefnd til að úrskurða um kæruefnið og nú hefur nefndin komist að niðurstöðu. Í úrskurðinum kemur fram að kröfu kæranda um ógildingu sveitarstjórnarkosninganna vegna kjörgengis oddvita Framsóknar og flugvallarvina sé vísað frá kjörnefndinni. Þá er kröfu um ógildingu af öðrum ástæðum hafnað.

Úrskurðinn má nálgast hér.