Hluthafar og kröfuhafar Eikar fasteignafélags hf. hafa samþykkt endurskipulagningu á fjárhag félagsins með samningum. Óveðtryggðum kröfum á hendur fyrirtækinu hefur verið breytt í eigið fé og eiga kröfuhafar þess það nú. Í þeim hópi eru meðal annars lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki.

Skuldir Eikar lækka um 3,4 milljarða við endurskipulagninguna og eigið fé fyrirtækisins hækkar um 3,2 milljarða. Veðtryggðir kröfuhafar hafa skuldbreytt og lengt í lánum Eikar sem tryggir gjaldfærni félagsins og að reksturinn verði traustur um ókomna tíð.

„Eftir endurskipulagningu mun Eik sigla lygnum sjó,“ segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar. „Eigið fé auk tekjuskattsskuldbindinga hefur hækkað um 3,2 milljarða og er nú 4,6 milljarðar. Þá hafa skuldir félagsins lækkað um 3,4 milljarða. Endurskipulagningin er mikið ánægjuefni enda er um að ræða eina af fáum endurskipulagningum á íslenskum fjármálamarkaði sem lokið er með frjálsum samningum og að teknu tilliti til hve aðkoma margra var nauðsynleg. Framtíð Eikar er björt,“ segir Garðar í yfirlýsingu til Viðskiptablaðsins vegna þessara tímamóta í sögu félagsins.